Vesturhópsvatn er staðsett í Þverárhreppi í V.-Húnaþingi í um 200 km fjarlægð frá Reykjavík.
Vatnið er um 10.3 km2 at stærð og í um 19 metra hæð yfir sjávarmáli. Það hefur verið mælt dýpst um 28 metrar.
Vatnið er í afar fögru umhverfi og yfir austurhluta þess gnæfir Borgarvirki sem er blágrýtisstapi, 177 metra hár.
Þar eru rústir af fornu virki en enginn veit hver hlóð það eða hvers vegna þótt þjóðsögur hermi að Víga-Barði Guðmundsson, sem frá segir í Heiðarvíga sögu og bjó í Ásbjarnarnesi við Hópið, hafi látið reisa það.
Við vatnið er stórt og rúmgott hús með 2 aðskildum íbúðum.
Veitt er með 8 stöngum í vatninu sem skiptast niður á hvora íbúð fyrir sig, 4 og 4.
Þarna er bátur sem er til afnota fyrir veiðimenn, sem og allur aðbúnaður, s.s. árar og veiðivesti.
Í vatninu er þónokkuð mikill fiskur, urriði sem er í meirihluta, og einnig er þar bleikja og murta.
Fiskurinn getur orðið allt að 4 pund að stærð þó megnið sé mun smærra.
Það er samgangur við sjó um Faxalæk og Víðidalsá, og því er einhver sjóbirtings- og laxavon í vatninu.