Langavatn er í Veiðivötnum sem óhætt er að segja að séu ein rómuðustu, gjöfulustu, og frægustu veiðivötn landsins.
Um er að ræða vatnaklasa í Landmannaafrétti sem samanstendur af allt að 50 vötnum, sem mörg hver eru sprengigígar. Um er að ræða bæði lítil sem stór vötn sem eru í um 570 ~ 590 metrum yfir sjávarmáli.
Flestir telja veiðivatnasvæðið eitt það fallegasta á landinu.
Langavatn
Langavatn er við hlið skálasvæðisins og í raun hægt að ganga að vatninu frá veiðikofanum eða tjaldsvæðinu. Þetta vatn er eitt fjögurra vatna sem eru í vatnaröð við Miðmundaröldu, og er Langavatn beint við hlið Eskivatns, sem er svo mitt á milli Langavatns og Kvíslarvatns.
Í Langavatni veiðist nær eingöngu bleikja þó af og til setji menn í urriða. Þetta vatn var áður urriðavatn sem varð að víkja fyrir bleikjunni eftir að hún kom í heimsókn.
Veiðistaðir eru nokkrir, en það er um að gera að reyna aðra staði en þá sem merktir eru á korti einnig.