Úlfljótsvatn er einstaklega skemmtilegt veiðivatn sem er staðsett í Grafningi, sunnan Þingvallavatns.
65 km fjarlægð frá Reykjavík ef farið er um Hellisheiði eða Þingvelli en 40 km. ef farin er svokölluð Nesjavallaleið.
Úlfljótsvatn er í raun efsti hluti Sogsins, milli Írafoss- og Steingrímsstöðvar. Veiðisvæðið er vestari hluta vatnsins að undanskildu því landsvæði sem Útilífsmiðstöð Skáta hefur til umráða.
Úlfljótsvatn er bergvatn, enda afrennsli Þingvallavatns. Töluverður straumur er í vatninu þar sem gegnumrennsli er að meðaltali 90 þúsund lítrar á sekúndu. Vatnið er um 4 km2 að stærð og yfir 20 m. djúpt þar sem það er dýpst. Úlfljótsvatn stendur í 80 metra hæð yfir sjávarmáli en til samanburðar er Þingvallavatn í 100,5 metra hæð.
Rétt er að benda á heimasíðu Veiðifélags Úlfljótsvatns, þar eru finna frekari upplýsingar um svæðið.
Orkuveita Reykjavíkur á jörðina Úlfljótsvatn en henni tilheyrir um helming vatnsins. Heimilt er að veiða í landi OR sem er vestari hluti vatnsins, þeim megin sem Úlfljótsvatnskirkja er, að undanskildu því svæði sem Skátarnir hafa til umráða. Veiðisvæðið nær í norður að landamerkjum við Steingrímsstöð og í suðri að landamerkjum við Írafoss. Merkingar aðgreina hvar má veiða.
Á síðastliðnum árum gilti Veiðikortið fyrir landi Efri-Brúar, austantil við vatnið, en nú er sem fyrr segir veiðisvæðið umtalsvert stærra við vestari hluta vatnsins.
Í vatninu veiðist mest af bleikju, en einnig nokkur urriði. Algengasta stærð fiskanna er hálft til tvö pund, en veiði á stærri fiski hefur aukist hin síðari ár og heyrast á hverju ári sögur af 6 ~ 7 punda bleikjum og urriðum sem slaga í 14 ~ 15 pund.
Leyfilegt er að veiða frá klukkan 7 til klukkan 23 út tímabilið sem nær frá 1. maí fram til 30. september, en besti veiðitíminn er frá miðjum júní fram í miðjan ágúst.
Einungis er heimilt að nota flugu, maðk, og spón sem agn.
Veiðikortshafar sem valda umhverfisspjöllum eru ábyrgir gagnvart landeiganda. Veiðiskýrslu ber að fylla út of skila í þar til gerðan merktan kassa við bæinn Úlfljótsvatn. Í þeim kassa verður hægt að nálgast veiðikort og veiðiskýrslu. Veiðiskýrslur er einnig hægt að sækja á vef Veiðikortsins og prenta út.
Ef veiðist fiskur, sem er merktur Veiðimálastofnun, ber að geta þess í veiðiskýrslu. Ekki er heimilt að koma með eigin báta til veiða í Úlfljótsvatni. Börn yngri en 14 ára veiða frítt í fylgd með korthafa. Nánari upplýsingar um svæðið má finna á heimasíðu Veiðifélags Úlfljótsvatns.
Úlfljótsvatn – Vinsælar flugur:
Skemmtilegar myndir frá svæðinu: