Ólafsfjarðará rennur í Ólafsfjarðarvatn, sem er stórt sjávarlón í botni Ólafsfjarðar, í um 440 km fjarlægð frá Reykjavík, en í um 60 km fjarlægð frá Akureyri.
Þetta er dragá sem á upptök sín á austanverðri Lágheiði og í fjalllendinu beggja vegna dalsins sem er nokkuð vatnsmikil, að mestu lygn, þó hún sé fremur straumhörð ofarlega.
Áin á það til að litast í miklum rigningum, en hreinsar sig mjög fljótt aftur og er því yfirleitt mjög tær.
Sjóbleikja gengur í Ólafsfjarðará seinnipart sumars, yfirleitt eins til tveggja punda fiskar, og er oft ágætis veiði í ánni.
Árleg veiði í ánni er um 1600 fiskar.
Leyfilegt er að veiða með maðk og flugu í ánni út tímabilið sem nær frá 15. júlí til 30. september.
Áin er veidd með 4 dagsstöngum sem skiptast á 2 svæði árinnar sem er með 20 skráða veiðistaði. Þó er heimilt að bæta við þriðju stöng á svæði séu báðar stangir svæðisins keyptar, og er þriðja stöngin þá ætluð ungviðnum, 12 ára og yngri.
Dagskvóti á stöng eru 12 fiskar, en enginn kvóti er á þriðju aukastönginni. Þó er heimilt að taka af kvóta hinna stanganna.
Aðgengið er allgott um mest alla á þó vissulega þurfi einstöku sinnum að ganga að veiðistöðum.
Upphafsmynd: Ólafsfjarðará, Ljósm.: Elli stangveiðinörd – http://elliveidir.blogspot.is/
Ólafsfjarðará – veðrið á staðnum