Heim / Laxveiði / Laxveiði á Norðurlandi / Miðfjarðará í Miðfirði
  • Miðfjarðará

    Drottning laxveiðiáa á Íslandi

  • Miðfjarðará

    Drottning laxveiðiáa á Íslandi

Miðfjarðará í Miðfirði

Miðfjarðará - Veiðistaðavefurinn

Miðfjarðará rennur um Miðfjörð í Vestur-Húnavatnssýslu í um 180 km fjarlægð frá Reykjavík, og fellur til sjávar í botni Miðfjarðar innan við Hvammstanga.

Miðfjarðará verður til við sameiningu Núpsár, Austurár, og Vesturár, en samanlagt vatnssvið þessara áa er töluvert, en Miðfjarðaráin sjálf er hinsvegar einungis um 13 km löng.
Efstu upptök ána þriggja liggja uppá á heiðunum suður af Miðfjarðardölum, í Kvíslarvötnum á Núpsheiði, Arnarvatni stóra, og Tvídægru, en á leið sinni frá upptökum og þar til þær sameinast og verða að Miðfjarðará falla ýmsir lækir í þær og gera þær að því vatnsfalli sem þær eru.

Miðfjarðará þykir afskaplega falleg á, og eru margir sem kalla hana drottningu laxveiðiáa, en hún þykir vera ein besta og er ein dýrasta laxveiðiá landsins.
Yfir 200 merktir veiðistaðir eru í þessari laxveiðiperlu en veiðisvæðið sjálft spannar um 85 km, og er því afskaplega rúmt um þær 10 stangir sem leyfðar eru í ánna, og aðrar 2 á silungasvæðinu sem er neðsti hluti Miðfjarðarár.

Laxasvæðinu er skipt upp í 5 svæði, með 2 stangir á hverju svæði.

Svæði 1 er neðsta svæðið og hefst við sameiningu Austurár og Vesturár, og nær yfir um 15 km svæði með flottum hyljum, Grjóthyl þeim frægustum.

Svæði 2 er neðri hluti Austurár, og er í raun styðsta svæði árinnar, og nær frá samskeytunum við Núpsá og niður að samskeytunum við Vesturá. Þetta svæði getur gefið mikinn fisk, sérstaklega þegar fiskur er að ganga.

Svæði 3 er efri partur Austurár, öll gilin, auk allrar árinnar fyrir ofan Kollafoss og laxastigann. Þetta svæði er stærst af þessum 5 svæðum, og auk þess það fallegasta og gjöfulasta.

Svæði 4 er neðri partur Vesturár, alveg frá Kollafossi og niður að samskeytunum við Austurá og Vesturá. Þetta svæði er með feikilega mikið af fallegum og gjöfulum hyljum.

Svæði 5 er efsti hluti Vesturár og hefst við fossinn Rjúkanda og nær allt niður að hylnum fræga, Túnhyl, þar sem oft má sjá laxa í hundraðatali. Flestir hyljir á svæði 5 eru nokkuð grunnir og er því kjörið að veiða hér á flotlínu og gárútúbur, eða smáflugur.

Veiðitímabilið í Miðfjarðará hefst 23. júní og nær til 28. september ár hvert, og er besti tíminn talinn vera frá 15. júlí til 31. ágúst, og er veitt á 6 til 10 stangir eftir tímabili.

Megnið af laxinum sem veiðist í Miðfjarðará er um 5 ~ 9 pund af stærð, en laxar allt að 20 pund veiðast þar einnig ár hvert.

Miðfjarðará var í nokkurri niðursveiflu fyrir nokkru, en árið 2015 snerust spilin aldeilis við og var alger metveiði í henni, eða 6028 veiddir laxar. Veiði frá árinu 2000 hefur hinsvegar verið frá 600 þegar það var sem minnst og mest um 4000, sem þá var besta veiðisumar frá upphafi mælinga, ef árið 2015 er ekki talið með.

Einstaklega glæsilegt veiðihús er við ánna, Laxahvammur, þar sem skildugisting er fyrir veiðimenn, en þar er hreinlega allt til alls og væsir ekki um neinn. Hægt er að panta sér leiðsögumenn ef veiðimenn kjósa, en oft er það heppilegt þegar stór veiðiá er heimsótt í fyrsta skiptið.

Miðfjarðará – veðrið á staðnum

x

Check Also

Blanda 1 neðsta svæði Blöndu

Blanda 1 er neðsta svæði Blöndu, sem er jökulá í Austur-Húnavatnssýslu á Norðvesturlandi og rennur í gegnum Blönduós, í um 240 km fjarlægð frá Reykjavík. ...