Heim / Silungsveiði / Silungsveiði á Norðurlandi / Fjarðará í Hvalvatnsfirði

Fjarðará í Hvalvatnsfirði

Fjarðará - Veiðistaðavefurinn

Fjarðará er skemmtileg fjögurra stanga sjóbleikjuá sem rennur í Hvalvatnsfjörð, en Hvalvatnsfjörður er einn nyrsti fjörðurinn á skaganum á milli Skjálfandaflóa og Eyjafjarðar í um 444 km fjarlægð frá Reykjavík, en um 62 km fjarlægð frá Akureyri.

Áin heitir í raun Fjarðará bara síðasta spölinn til sjávar, eftir að Gilsá og Þverá hafa sameinast við bæinn Gil, en þangað er áin fiskgeng upp að fossi, um 8 km vegalengd.
Í Fjarðará veiðist helst falleg sjóbleikja allt að tæplega 3 pundum að stærð, en einnig slæðingur af sjóbirtingi og lax.

Margir fínir veiðistaðir eru alla leið að ósi, en þó er aflahæsta svæðið ósasvæðið við Fjarðará.

Ekki er ráðlegt að fara í Hvalvatnsfjörð á fólksbíl, en til að komast á staðinn er ekið í átt að Grenivík sem er utarlega í Eyjafirðinum austanverðum. Nokkru áður en komið er inn í Grenivík er beygt til hægri, upp með Gljúfurá, en þaðan er svo ekið yfir Leirdalsheiði og niður í Hvalvatnsfjörð.

Frá þjóðvegi niður að ósi er að lágmarki 45 mínútna akstur eftir aðstæðum, niður að ósi, og bera skal í huga að þetta er ekki vegur sem gerður er fyrir vanbúna fólksbíla, en frá afleggjaranum við Gljúfurá og að efsta veiðistað við fossinn við eyðibýlið Gil er um 18 km spölur.

Leyfilegt er að veiða á flugu, maðk, og spón í Fjarðará út tímabiliði, en oft opnar ekki vegurinn inn að firði fyrr en síðast í júní, og jafnvel í byrjun júlí ár hvert, og stundum mun síðar ef veturinn hefur verið harður, en besti tíminn fyrir sjóbleikjuna þarna er frá seinnipart júlímánaðar.

Ákaflega þægilegt og gott er að nota flugu um alla ánna og eru kúluhausar og þurrflugur mjög öflugar. Straumflugur eru einnig mjög sterkar á vissum stöðum árinnar, og spónn á ósasvæðinu. Á efstu svæðunum hefur maðkurinn svo verið að gefa vel.

Seldar eru 4 stangir á dag í Fjarðará og er leyfilegt að veiða þar frá klukkan 6:00 til miðnættis dag hvern.
Verð veiðileyfa í Fjarðará er frá kr 4200 til kr 6000.

Ekkert veiðihús fylgir seldum veiðileyfum.

Upphafsmynd: SVAK

Fjarðará – Vinsælar flugur:

x

Check Also

Vesturhópsvatn

Vesturhópsvatn er staðsett  í Þverárhreppi í V.-Húnaþingi í um 200 km fjarlægð frá Reykjavík. Vatnið er um 10.3 km2 at stærð og í um 19 ...