Fáskrúð í Dölum er fjölbreytt, skemmtileg og krefjandi laxveiðiá sem er staðsett 10 km norðan Búðardals í um 165 km fjarlægð frá Reykjavík.
Fáskrúð skilur að Laxárdalshrepp og Hvammssveit en áin á upptök sín á Gaflfellsheiði tugi kílómetra frá sjó og fellur svo til sjávar í Hvammsfjörð um 8 km fyrir norðan Búðardal. Áin liðast ein um 20 km leið til sjávar en laxgenga svæði hennar er um 12-14 km langt og hefur 36 merkta veiðistaði. Áin getur talist frekar aðgengileg sem laxveiðiá þrátt fyrir stórgrýtt og magnað landslag á köflum.
Svæðið nær frá Katlafossi niður að sjó en þar er að finna veiðistaðina Neðri- og Efri Brúarstrengi og sjást þeir vel þegar ekið er yfir þjóðvegsbrúna við ós árinnar.
Í góðu vatni kemst stöku lax upp fyrir efsta veiðistaðinn Katlafoss og eru þess dæmi að fengist hafi þar laxar. Einungis er þar um 400 m. kafla að ræða og hreint ómögulegt fyrir laxinn að ganga enn lengra þar sem svokallaður Efri-Foss hindrar laxgengd með öllu.
Áin er frábær fyrir fjölskyldur eða veiðihópa og hefur verið mjög vinsæl hjá veiðimönnum og er með tæplega 40 merkta veiðistaði frá Katlafossum niður að sjávarósi.
Í ánni er veitt á þrjár stangir á besta tímanum en tvær stangir til endanna. Tímabilið í Fáskrúð nær frá 1. júlí til 28. september.