Eyjafjarðará fellur í Pollinn á Akureyri í botni Eyjafjarðar, í um 390 km fjarlægð frá Reykjavík, eftir að hafa runnið úr botni dalsins, þar sem hún á upptök sín, og norður eftir Eyjafjarðardalnum, alls um rúmlega 60 km vegalengd. Á leið sinni niður úr dalnum eru fjölmargir lækir sem renna úr fjöllunum í kring og sameinast ánni og gera ánna að því vatnsfalli sem hún er.
Eyjafjörðurinn er eitthvert gróðursælasta hérað landsins, eins og sjá má af stöðugt vaxandi skógum og iðjagrænum túnum þessa góða landbúnaðarsvæðis.
Eyjafjarðará er þekkt sem ein af bestu stórbleikjuám landsins, og fyrir allgóða veiði. Utan bleikjunnar þá veiðist einnig staðbundinn urriði, sjóbirtingur, og stöku lax í Eyjafjarðará ár hvert. Sjóbirtingurinn veiðist í töluverðu magni.
Eyjafjarðará er skipt upp í 6 veiðisvæði með 2 stöngum á svæði, og eru seld veiðileyfi sérstaklega fyrir hvert svæði fyrir sig. Þá eru seld sumar- og helgarkort fyrir ósasvæði Eyjafjarðarár á hóflegu verði.
Svæðin 6 skiptast á eftirfarandi máta:
- Svæði 0 – Vor 25. apríl til 31. maí / sumar 20. júní til 30. sept
Nær frá merki ca. 100 metrum neðan við gömlu brýrnar austan flugvallarins upp að hitaveituröri við Teig. - Svæði 1 – Vor 25. apríl til 31. maí / sumar 20. júní til 30. sept
Nær frá merki við hitaveiturör neðan Teigs að merki 50 m sunnan Munkaþverár. - Svæði 2 – 1. júlí til 30. sept
Nær frá merki 50 sunnan Munkaþverár að Guðrúnarstaðabæ. - Svæði 3 – 1. júlí til 30. sept
Nær frá Guðrúnarstaðabæ að merki norðan Hleiðargarðs. - Svæði 4 – 1. júlí til 31. ágúst
Nær frá merki norðan Hleiðargarðs að göngubrú við Hóla. - Svæði 5 – 1. júlí til 31. ágúst
Nær frá göngubrú við Hóla að merki við Tjaldbakkahyl
Á svæðum 3, 4 og 5 er einungis leyfilegt að veiða á flugu, með einum eða tveimur krókum, með flugustöng og fluguhjóli. (athugið að svæði 3 hefur einnig verið gert að fluguveiðisvæði)
Skylda er að sleppa ÖLLUM veiddum bleikjum á öllum svæðum árinnar.
Heimilt að hirða 2 urriða/sjóbirtinga á stöng á vakt.
Í vorveiðinni frá 25. apríl til 31. maí á svæðum 0 & 1 ber að sleppa öllum fiski.
Verð veiðileyfa hefur verið stillt í hóf og kosta þau á bilinu 1100 kr til 12700 kr dagsstöngin, eftir tímabili og svæði, og seld eru leyfi fyrir einn dag í senn.
Veiðitíminn er frá kl. 07.00 til 13.00 og 16.00 til 22.00. og frá 15. ágúst kl. 15.00 til 21.00
Best hefur gefist í Eyjafjarðará að veiða með púpum andstreymis, enda fæðuframboð í ánni töluvert.
Ef áform eru uppi um að fara að veiða í ánni þá ber að hafa í huga að ekki er alltaf auðvelt að næla sér í leyfi vegna vinsælda meðal heimamanna, það er þvi betra að huga að leyfum með góðum fyrirvara.
Myndir: Veiðifélag Eyjafjarðarár
Eyjafjarðará – vinsælar flugur: