Úlfsvatn er stærst vatna á Arnarvatnsheiði sunnanverðri, tæplega 3.9km2 að flatarmáli og um 3.5 metra djúpt þar sem það er dýpst. Meðaldýpt vatnsins er hinsvegar um 2.5 metrar. Úlfsvatn liggur í um 434 metrum yfir sjávarmáli, og er í raun annað stærsta vatn heiðarinnar allrar.
Úr vatninu rennur áin Úlfsvatnsá til Grunnuvatna, og Gilsbakkaá rennur í það að norðanverðu.
Úlfsvatn er oftar en ekki fyrsti viðkomustaður þeirra sem fara á heiðina sunnanverða þar sem við vatnið eru margir þeirra skála sem leigðir eru út til gistingar. Það er líka í leiðinni þegar farið er hvert annað eftir að komið er yfir vaðið yfir Norðlingafljót.
Úlfsvatn er mjög gjöfult veiðivatn, en í því er bæði bleikja og urriði með meðalþyngd fiska í kringum 2 pundin, en í vatninu eru samt gríðarvænir fiskar, og allt að 9 punda bleikja og 13 punda urriði hafa komið þarna upp í gegnum tíðina.
Úlfsvatn er eina veiðivatnið á Arnarvatnsheiði sunnanverðri sem hefur verið haldið utanvið netaveiði veiðiréttareigenda, þó fyrr á tímum hafi þarna verið stunduð netaveiði. Þarna er í dag eingöngu stunduð stangaveiði.
Vinsælast er að veiða við suðurbakka vatnsins og út frá töngum þar og er ástæðan að öllum líkindum sú að að vegurinn að vatninu liggur að suðurhluta vatnsins þar sem veiðihúsin eru. Veiðin á öðrum stöðum vatnsins er engan vegin verri, og þarf þá að notast við tvo jafnfljóta eða fara torfæra vegslóða á vel útbúnum bílum.
Þar sem vatnið er fremur grunnt getur það litast eða gruggast í vindasömu veðri. Þá er upplagt að fara þeim megin í vatnið sem vindur stendur á það, því þar er oftar en ekki tær rönd sem hægt er að veiða í.
Leyfilegt er að veiða á flugu, spón og maðk í Úlfsvatni, en hingað til hefur maðkur og spónn verið vinsælast þó flugan hafi verið að koma sterk inn á síðustu árum.
Allar upplýsingar um veiðitímabil Arnarvatnsheiðar sunnanverðrar er að finna á yfirlitsíðu fyrir Arnarvatnsheiði hér.
Skemmtilegar myndir frá svæðinu:
Úlfsvatn – vinsælar flugur: