Heim / Laxveiði / Laxveiði á Norðurlandi / Mýrarkvísl í Reykjahverfi

Mýrarkvísl í Reykjahverfi

Mýrarkvísl - Veiðistaðavefurinn

Mýrarkvísl er í mikilli náttúrufegurð í Reykjahverfi við Húsavík í um 465 km fjarlægð frá Reykjavík, en í einungis um 10 km fjarlægð frá Húsavík.
Þetta er dragá, með drjúgum lindáreinkennum, og er ekki mjög stór. Hún á upptök sín í Langavatni og er um 25 km vegalengd frá vatni og niður að ósi við Laxá í Aðaldal, en áin er ein af mörgum hliðarám Laxár í Aðaldal. Áin öll er hinsvegar rúmlega 31 km löng. Mýrarkvísl er fiskgeng alveg upp að vatni, og eru merktir veiðistaðir um 50 talsins.

Á leiðinni úr Langavatni og niður að ósi við Laxá rennur áin um ægifagurt og fjölbreytt umhverfi, allt frá rólegheita breiðum og upp í mikil gljúfur með ævintýralegu aðgengi að veiðistöðum með heilmiklu klöngri. Gljúfrin hafa ætíð verið ein af vinsælustu svæðum árinnar en bera skal í huga að þetta er heilmikið klöngur og þarf að nota kaðla til að komast á einhverja staðina.

Lax og urriði veiðast í Mýrarkvísl og hefur meðalveiði í ánni verið um 143 laxar frá árinu 2000, og hefur Mýrarkvísl verið þekkt fyrir góða meðalþyngd laxa. Og þó svo Mýrarkvísl sé aðallega laxveiðiá skal hafa í huga að nokkuð mikið er af  sterkum urriðum sem einnig er gaman er að veiða. Mýrarkvísl hentar öllum hópum, bæði þá sem lengra eru komnir jafnt og byrjendum.

Veitt er á þremur stöngum í Mýrarkvísl, og er ánni skipt upp í 3 svæði með eina stöng á svæði.
Eingöngu er veitt á flugu og er öllum fiski sleppt aftur. Stangirnar 3 eru ætíð seldar saman.
Athuga ber að veiðileyfi í Langavatni fylgir með seldum veiðileyfum, en þar má auk flugu, veiða með maðk og spón.

Nokkuð gott aðgengi er að flestum veiðistöðum og hægt er að keyra á fólksbílum ef varlega er farið. Í mikilli úrkomu geta hinsvegar fólksbílar lent í vandræðum.

Mýrarkvísl – veiðihús:

Rúmgott, notarlegt, og nýuppgert veiðihús fylgir seldum veiðileyfum, en í því eru 4 tveggja manna svefnherbergi, auk eldhúss með öllum helstu áhöldum og gasgrill. Veiðihúsið er ekki langt frá efsta veiðistað Mýrarkvíslar.

x

Check Also

Blanda 2, Austur-Húnavatnssýslu

Blanda 2 er annað svæðið í Blöndu, sem er jökulá í Austur-Húnavatnssýslu á Norðvesturlandi og rennur í gegnum Blönduós, í um 240 km fjarlægð frá ...