Fremri Laxá er 7 km löng lindá sem fellur úr Svínavatni í Laxárvatn í Austur-Húnavatnssýslu í um 270 km fjarlægð frá Reykjavík, og um 14 km fjarlægð frá Blönduós.
Laxá í Ásum fellur svo úr Laxárvatni, en Laxá í Ásum er ein þekktasta og dýrasta laxveiðiá landsins.
Þetta er nett og falleg veiðiá sem hentar ákaflega vel fyrir fluguveiði, hvort sem um er að ræða með straumflugu, púpu, eða þurrflugu. Þetta er ein af þessum ám sem sömu hóparnir heimsækja ár eftir ár.
Urriði er uppistaða veiðinnar í Fremri Laxá sem hefur fest sig í sessi sem ein af bestu urriðaveiðiám landsins, en alltaf slæðist einn og einn lax í ánna ár hvert og lætur glepjast á agn veiðimanna.
Fjöldi urriða sem veiðimenn veiða yfir sumarmánuðina í Fremri Laxá er ævintýralegur og skipta tugum á hverja stöng á dag.
Stærð urriðans í Fremri Laxá er yfirleitt 1 ~ 1.5 pund, en er sterkur og berst af hörku.
Vegna náttúrulegra skilyrða og gnægð hornsíla, á urriðinn einstaklega auðvelt með að fjölga sér og dafna í Fremri Laxá.
Meðalveiði í Fremri Laxá undanfarin ár er í kringum 4000 urriðar, sem telst svakalega gott ef horft er til þess að einungis er leyfð veiði á 2 ~ 3 stangir á dag eftir tímabili, en veiðitímabilið spannar frá 25. maí og nær til 15. september ár hvert.
Aðkoman að húsinu er mjög góð, og hægt er að komast á fjórhjóladrifnum bíl að flestum veiðistöðum og hyljum.
Upphafsmynd frá Veiðifélaginu Straumar
Skemmtilegar myndir frá Fremri Laxá: