Skorradalsvatn er í Skorradal í Borgarfirði í um 90 km fjarlægð frá Reykjavík, en Skorradalurinn er ákaflega fallegt svæði og er þar nokkuð mikil sumarhúsabyggð.
Þetta er nokkuð mikið stöðuvatn og liggur það í um 58 metrum yfir sjávarmáli og er um 16 km langt en þó ekki nema um 1 ~ 1.5 km að breidd að mestum parti. Þetta er djúpt vatn eða um 48 metrar þar sem það hefur verið mælt dýpst, en meðaldýptin er um 22 metrar.
Úr vatninu rennur Andakílsá sem er þekkt laxveiðiá, og í vatnið rennur svo Fitjaá sem rennur úr Eiríksvatni.
Í Skorradalsvatni er mikið af fiski, sem að mestu er smábleikja, en þarna eru einnig risavaxnar bleikjur og gríðarvænir urriðar.
Hinsvegar hefur reynst fremur erfitt að veiða þessa fiska á stöng frá bakka og flestir af þessum risavöxnu fiskum koma á með að trolla af bát með stórum spúnum, eða í net.
Það er hinsvegar ekki algilt og alltaf veiðast fallegir silungar ár hvert.
Heimildir segja að stærsta veidda bleikja á Íslandi hafi veiðst í Skorradalsvatni, hvenær það var er ekki vitað, en samkvæmt heimildum vó hún um 20 pund. Bleikjur allt að 15 pund veiðast alltaf af og til í vatninu og urriðinn hefur verið allt að 14 pund.
Stóru fiskarnir hafa helst verið að koma á agn veiðimanna snemmsumars, eða þegar tekur að hausta.
Gömul þjóðsaga segir að í vatninu væri risavaxinn ormur sem kallaður var Skorradalsormurinn, en eins og Ólafur Davíðsson, þjóðfræðingur segir svo skemmtilega frá:
Sagnir eru um það að fyrr á öldum hafi menn þóst sjá svarta rák eða hrygg eftir endilöngu vatninu. Stundum sást ormurinn reka einstaka hluta upp úr vatninu, svo sem hausinn eða sporðinn, og hefur þá verið mjög langt á milli þeirra. Stundum hefur hann teygt kryppuna svo hátt að hann hefur borið yfir há fjöll. Aldrei birtist ormurinn nema fyrir einhverjum illum tíðindum, annað hvort vondu veðri eða mannskæðum drepsóttum. Mest bar á orminum á 17. öld og kvað svo rammt að, að menn voru hræddir um, að hann myndi eyða sveitinni. Fengu Skordælingar því Hallgrím Pétursson til að afstýra þessum ófagnaði nálægt 1660. Hann varð vel við bæn þeirra, og kvað orminn niður á báðum endum og í miðjunni, svo að hann má ekki mein gera síðan. En á jólaföstu 1858 sást skrímslið marga daga í röð og allt fram yfir jól. Og enn sást það 1870 í vatnsósnum og var þá í lögun eins og áttæringur á hvolfi.
Skorradalsvatn er nokkuð aðgrunnt næst landi en svo dýpkar það hratt. Helst er að fiskurinn haldi sig í kantinum þarna.
Aflaháir staðir í gegnum tíðina er til að mynda undan Stóru Drageyri þar sem lækurinn rennur niður í vatnið.
Löglegt agn er maðkur, fluga, og spónn, og ekki eru takmarkaðar stangir í vatnið allt árið.
Skorradalsvatn – Skemmtilegar myndir: