Laxá í Kjós er laxveiðiá sem á upptök í Stíflisdalsvatni í Þingvallasveit. Í ánni er fossinn Þórufoss og gengur lax upp að þeim fossi. Lengd Laxár er 25 km.
Hún er í um 30 km. fjarlægð frá Reykjavík inn af Hvalfirði.
Fyrsta laxaklak á Íslandi var reynt í Laxá árið 1884. Frumkvæði að þeirri tilraun átti Þorkell Bjarnason prestur á Reynivöllum en hann fékk hingað norræna fiskifræðinga og var kössum sem vatn gat runnið í gegnum komið fyrir í Laxá og í kassana settar 13 hrygnur og 18 hængar.
Laxá í Kjós og Bugða hafa um langt árabil verið meðal bestu laxveiðiáa landsins. Náttúrufegurð er mikil í Kjósinni og fjöldi fallegra veiðistaða. Veiðisvæðið er um 25 km langt með yfir 100 merkta veiðistaði. Aðgengið að ánni er þægilegt og nægir 4×4 fólksbíll fyllilega til að athafna sig á bökkum Laxár í Kjós og Bugðu.
Bæði Laxá í Kjós og Bugða eru skemmtilegar fluguveiðiár og flesta veiðistaði er vel hægt að veiða með einhendu.
Veitt er með 8 – 10 stöngum út tímabilið sem nær frá 20. júní og nær til 25. september.