Laxárvatn er á Laxárdalsheiði í Dölum í um 180 km fjarlægð frá Reykjavík, og um 30 km fjarlægð frá Búðardal. Laxá í Dölum á upptök sín í Laxárvatni. Vatnið er um 0,5 km2 að stærð og í um 150m hæð yfir sjávarmáli.
Ekið er um Bröttubrekku í áttina að Búðardal, ef komið er að sunnan, annars farið hefðbundnar leiðir frá Norðurlandi eða Vestfjörðum. Rétt áður en komið er að Laxá í Dölum er beygt upp Laxárdalinn og ekið að bænum Sólheimum til að skrá sig. Til að komast að vatninu er best að fara inn á gamlan veg, sem liggur frá þjóðvaeginum og niður með Lægðarlæk, en þar er hægt að leggja bílum og ganga niður að vatni.
Nokkuð góð veiði er í Laxárvatni, en einungis urriði er í vatninu og er algeng stærð um 1-3 pund.
Daglegur veiðitími er frá morgni til kvölds, en skráning inn á veiðistæðið þarf hinsvegar að vera á milli kl 7:00 til kl 22:00.
Nokkuð jöfn og góð veiði er yfir tímabilið sem nær frá 1. maí og líkur 30. september.
Heimilt er að veiða í öllu vatninu, og er leyfilegt agn fluga, maðkur og spónn.
Stranglega bannað er að leggja net.